Heterodox telur að Vigdísi sé borgað fyrir að rægja sjálfa sig

Maður, sem skrifar undir pennanafninu Heterodox, telur augljóst að Vigdís Hauksdóttir fái greitt fyrir að rægja sjálfa sig á netinu, fjölmiðlum sem og á þingpöllum og spilla þannig fyrir trúverðugleika hennar.

Vigdís, sem hefur lengst af sagst vera þingmaður Framsóknarflokksins, hefur mikið tjáð sig gegnum fjölmiðla og síðast en ekki síst í pontu Alþingis, en Vigdís þiggur laun sín þaðan. Hún virðist hreint ekki hrifin af útlendingum, þróunaraðstoð og þeim sem telja óæskilegt að krydda matvæli með iðnaðarsalti eins og sjá má af ummælum hennar sem fylgja þessari grein.

„Virðulegi forseti. Við þurfum að taka höndum saman og reyna að koma málum í lag. Það verður ekki gert í tíð þessarar ríkisstjórnar vegna þess að hún hefur að mestu sóað ríkisfé í gæluverkefni eins og ESB-umsóknina og, takið eftir, þróunarhjálp hjá öðrum ríkjum þegar Íslendingar sjálfir svelta.[Háreysti í þingsal.]“

– er farin að hallast að því að „ráðendur“ noti iðnaðarsaltið til að tala niður íslenska framleiðslu og landbúnaðarafurðir
– sé að krataáróðurinn stefnir í þá átt !!!

Um hádegisbilið þótti Heterodox nóg um þjóðernisrembda illsku Vigdísar í garð Þeirra Sem Passa Ekki Í Kassann Hennar og snéri allrækilega úr „orðið á götunni-frétt“ sem birtist á Vísi. Við smið grínsins leyfði hann sér meira að segja að tala um sjálfan sig í þriðju persónu og keyra óþolandi sjálfsmeðvitaðan textastíl í botn. Í lokin vildi hann benda á hversu auðveld sálfræði það er að beina spjótum pólitíkurinnar í átt að hælisleitendum og útlendingum. Þeir sem taki mark á þannig málaflutningi gera það á grundvelli þjóðernishyggju og hana er erfitt að kollvarpa með sjónarmiðum á borð við:

  • Hversu andskotans litlu hlutfalli Ísland eyði í raun í þessa málaflokka,
  • Hversu andskotans lítið hlutfall af innflytjendum séu til vandræða,
  • Hversu andskotans mikilli athygli ákveðnir fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar og þingmenn veiti þeim sem eru með vesen, eins og um allan hópinn væri að ræða.

Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar flestir ljúga.
(Höf. óþekktur)

Auglýsingar